Kjarasamningar/Laun

Kjarasamningar fjalla um kaup og kjör, til að mynda laun, vinnutíma, orlof, yfirvinnu, uppsagnarfrest, veikindarétt og fleira. Kjarasamningar gilda fyrir ákveðna hópa og svæði. Stéttarfélög eru formlegur samningsaðili við aðila vinnumarkaðarins, í vissum tilfellum taka stéttarfélög sig saman og vinna að gerð þeirra í heildarsamtökum á borð svið Starfsgreinasamband Íslands (SGS)

Kauptaxta má finna undir hverjum samningi fyrir sig hér fyrir neðan

Vinnumarkaður er í raun tvískiptur og má greina niður í:

  • Almennan vinnumarkað (þar sem samið er við samtök atvinnulífsins)
  • Opinberan vinnumarkað (þar sem samið er við ríki og sveitarfélög)

Mikilvægt að hafa í huga þegar finna á samning þann sem unnið er eftir

  • Misjafnar reglur gilda eftir því hvort unnið er á almennum markaði hjá ríki eða sveitarfélagi
  • Í vissum tilfellum geta sérreglur átt við um ákveðnar greinar
  • Gæta þess að skoða ávallt nýjasta samninginn

Laun

Um laun, launagreiðslur, fyrirkomulag á greiðslu launa o.s.frv. er fjallað um í lögum en þó fyrst og fremst kjarasamningum. Í 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda segir orðrétt: 

"Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir."  


Laun og önnur starfskjör launafólks eru samkvæmt framansögðu viðfangsefni aðila vinnumarkaðarins. Að því er varðar önnur starfskjör en laun þá hefur löggjafinn á ýmsum sviðum sett lög þar sem ákveðin lágmarksréttindi eru tryggð. Slík lágmarksréttindi eru síðan útfærð nánar í kjarasamningnum.

Leiðbeiningar

  1. Finna samning sem á við starfið sem er unnið.
  2. Finna starf í upptalningu og hvaða launaflokkur á við. 
  3. Fletta upp í launatöflu launaflokki.

Allar launatölur sem gefnar eru upp eru fyrir skatt og miða við 100% starf

Launareiknivél

Starfsgreinasambandið, fyrir hönd allra sinna aðildarfélaga, hefur látið setja upp reiknivél þar sem félagsmenn geta nýtt sér til að reikna út laun sín, kannað hvort launaseðlar þeirra séu réttir og annað það sem snertir margvíslegar greiðslur. 

Vert er að hafa í huga að mögulega er ekki hægt að ná utan um sérstakar kringumstæður og er félagsmönnum bent á að hafa samband við sitt stéttarfélag ef spurningar vakna.