Þinn réttur

Fyrstu skrefin á vinnumarkaði geta verið erfið þar sem ungt fólk er oftar en ekki illa upplýst um rétt sinn og skyldur.

Hér er að finna almennar upplýsingar, en ekki er um að ræða tæmandi talningu á réttindum. Ef frekari upplýsinga vantar svara þjónustufulltrúar félagsins spurningum sem kunna að vakna. 

Almennt

  • Allir starfsmenn hafa aðgang að stéttarfélögum á Íslandi
  • Stéttarfélagsaðild veitir aðgang að styrkjum, aðstoð í veikindum, ráðgjöf og lögfræðiaðstoð er varðar vinnutengd atriði
  • Kjarasamningar tryggja lágmarksréttindi og segja hvaða laun og kjör þú átt að vera með að lágmarki. Þú getur samið um meiri rétt en getið er um í samningum. Kjarasamningar geta verið misjafnir.
  • Forðastu svarta vinnu. Því ef þú vinnur svart færðu ekki laun í sumarfríi eða þegar þú veikist eða slasast. Þú ert ekki tryggð/ur ef slys verða og þú verður af öllum réttindum sem fylgja  því að vera launamanneskja. Svört vinna er ólögleg.
  • Forðastu verktakavinnu. Athugaðu að verktakasamningar eru í flestum tilvikum óhagstæðir launafólki. Laun verktaka þurfa að vera allt að 70% hærri en launafólks til þess að verktaki hafi sambærileg réttindi og laun.

 Ráðningarsamningur

  • Allir nýir starfsmenn eiga að gera skriflegan ráðningarsamnning þar sem meðal annars þarf að koma fram ráðningartími, starf, uppsagnarfrestur, laun, lengd vinnudags, í hvaða lífeyrissjóðs er greitt og hvaða kjarasamning er stuðst við.
  • Ráðningarsamningar geta ýmist verið ótímabundnir eða tímabundnir. Sé ekki annað tekið fram í samningi eða lögum er hann ótímabundinn.
  • Tímabundin ráðning er ráðning sem líkur á ákveðnum degi án uppsagnar.
  • Sé fólk ráðið áfram til starfa eftir lok tímabundinnar ráðningar, án þess að framlengingin sé tímabundin, hefst ótímabundin ráðning og verður að segja fólki upp með lög og samningsbundnum uppsagnarfresti.
  • Sé starfsmaður ráðinn til vaktavinnu, skal það koma fram í ráðningarsamningi hans.  Ráðningarsamningur gerir ráð fyrir starfshlutfalli í samræmi við vaktatöflu
  • Við ráðningu ólögráða einstaklings er rétt að vinnuveitandi óski eftir samþykki forráðamanns þar sem fram kemur að forráðamaður samþykki að (nafn) ráði sig til starfa hjá (heiti vinnuveitanda) og hafi kynnt sér ráðningarkjör, vinnutíma og eðli þess starfs sem ungmenni er ráðið til að sinna.
  • Vinnuveitandi þarf að gæta að vinnuverndarreglum, takmörkun á vinnutíma og upplýsingaskyldu þegar ungmenni eru ráðin til starfa.

 Laun

  • Öll ákvæði ráðningarsamninga, formlegra eða óformlegra, um lægri laun, uppbætur eða starfstengdar greiðslur en kjarasamningar mæla fyrir um eru ógild.
  • Þú átt að fá laun fyrir þá vinnu sem þú vinnur, prufudagar án launa eru ólöglegir
  • Jafnaðarkaup  er ekki til í kjarasamningum, bara dagvinna og yfirvinna eða vaktavinna með álagi
  • Dagvinna er unnin mánudaga til föstudaga, 8 tíma á dag
  • Yfirvinna hefst þegar stafsmaður hefur lokið fullum vinnudegi

 Vaktavinna

  • Ef þú ert í vaktavinnu áttu að fá greitt álag á kvöldin og um helgar.
  • Þú átt að fá greitt fyrir vaktina þó þú sért send/ur heim fyrr.
  • Vaktavinna er fyrirfram ákveðin vinnutilhögun og á því ekki við um tilfallandi vinnu.
  • Vaktir eru skipulagðar til ákveðins tíma (gjarnan fjögurra vikna í senn eða lengur) og vaktskrá aðgengileg starfsmönnuLengd vakta er fyrirfram ákveðin og er í kjarasamningum kveðið á um lágmarkslengd vakta.
  • Reglur vegna breytinga á vaktaplani starfsmanna má finna í viðkomandi kjarasamningi, en þá má finna hér.

Kaffitími, matartími og neysluhlé

  • Þú átt rétt á tveimur kaffitímum á dag, fyrir og eftir hádegi. Miða við 8 tíma vinnudag
  • Þú átt rétt á matartíma að lámarki 30 mínútur, en ekki á launum
  • Neysluhlé í vaktavinnu skulu vera sem svarar 5 mín. fyrir hvern unninn klukkutíma og skiptast eftir samkomulagi starfsmanna og stjórnanda.
  • Sé ekki unnt að veita matartíma skal hann greiddur

Launaseðill

  • Geymdu alla launaseðla, á þeim skal sundurliða greiðslur, m.a. Í dagvinnu,  yfirvinnu og stórhátíðarvinnu. Einnig skal allur frádráttur sundurliðaður. Orlofslaun skulu skráð á launaseðil ef við á. Einnig skal tiltaka áunnin frítökurétt.
  • Öllum 16 ára og eldri er skylt að greiða í lífeyrissjóð af öllum launum sínum. Launafólk á að greiða 4% af laununum í sjóðinn en atvinnurekandi greiðir 8% á móti. Þetta á að koma fram á launaseðlinum. (hefst mánuði eftir að 16 ára aldri er náð)
  • Þeir sem ná 16 ára aldri á tekjuárinu reiknast fullur persónuafsláttur fyrir allt árið

Orlof

  • Allir eiga rétt á 24 daga lámarksorlofi jafnvel þó þeir eigi ekki rétt til orlofslauna allan tímann
  • Fyrir hvern mánuð vinnur þú þér inn að lágmarki tvo daga í orlofsrétt sem oftast eru teknir út í fríi á orlofstíma samkvæmt kjarasamningum eða greiddir út við starfslok.
  • Orlof ber að taka í samráði við vinnu veitanda

Lágmarkshvíld

  •  Réttur til tveggja frídaga í viku – eða 35 tíma semfeldrar hvílar einu sinni í viku
  • Þú átt rétt á a.m.k. 11 klst. Samfelldri hvíld á hverjum sólarhring en við mjög sérstakar aðstæður er heimilt að skerða hvíldina og eins vegna vaktavinnu og þá má hvíld fara niður í átta stundir.

Launalaust leyfi

  • Launalaust leyfi er háð samþykki atvinnurekanda og tekið í samráði við hann
  • Sé óskað eftir launalausu leyfi er best að gera það skriflega og fá svar skriflega

Veikindaréttur

  • Veikindaréttur er neyðarréttur, honum á ekki að eyða
  • Þegar þú hefur unnið í einn mánuð á sama stað öðlast þú rétt til launa í veikindum sem samsvarar tveim dögum í mánuði.
  • Ef starfmaður veikist og getur ekki unnið skal hann tilkynna það tafarlaust til vinnuveitanda
  • Læknisvottorð skal skilað inn eftir beiðni vinnuveitanda og er greitt fyrir af vinnuveitanda

Uppsagnarfrestur

  • Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur. Það þýðir að þú hefur sama rétt til að segja upp starfi og hefur sömu skyldu til að virða uppsagnarfrestinn og atvinnurekandinn hefur, ef hann segir þér upp.
  • Uppsögn skal vera skrifleg.
  • Uppsagnarfrestur er misjafn eftir kjarasamningum og fer eftir starfsaldri